Hjartans mál

Hjartans mál er ný 12 laga plata eftir Hólmfríði Samúelsdóttur (Hófí Samúels). Lög plötunnar fjalla um hvíld, kærleika og tengsl. Hjartans mál er einlæg fjölskylduplata fyrir börn, fjölskyldur og ástvini. Hún hentar vel fyrir svefninn en passar líka vel í göngutúrinn og bíltúrinn….

Höfundur:

Höfundur laga og texta Hjartans máls er Hófí Samúels. Hófí er 39 ára, tónlistarkona, laga- og textahöfundur. Hún er gift Arnari Jónssyni. Saman eiga þau börnin Ídu og Bastían (7 og 5 ára) og tíkurnar Hetju og Pollýönnu (13 og 9 ára). Frá árinu 2006 hafa komið út 17 lög eftir Hófí auk nokkurra lagatexta. Flest útgefinna laga eru flutt af sveitinni SamSam. Áhugasamir geta lesið um eða hlustað á verk Hófíar hér:
www.facebook.com/hofisamuelsmusic
https://open.spotify.com/playlist/6gQ3Ts2eo7bbNBZBzsXvgu

Hófí er kennari að mennt og hefur starfað í grunnskóla frá árinu 2009. Hún er með diplómagráðu í jákvæðri sálfræði. Í átta ár var Hófí umsjónarkennari í grunnskóla og í 15 ár þjálfaði hún knattspyrnu. Síðustu fjögur ár hefur hún sinnt velferðarkennslu og brennur í dag fyrir að auka vægi velferðar í grunnskólum landsins auk þess að leita leiða til að styrkja tungumálið með sem fjölbreyttustum hætti. Það er mat Hófíar að nota megi lagatexta markvisst til að styðja við málþroska, styrkja tungumálið, dýpka skilning og efla orðaforða. Tónlist, tónar og melódíur hafa áhrif á líðan og geta kallað fram sterkar tilfinningar. Það er markmið höfundar og verksins Hjartans mál að stuðla að vellíðan og styrkja tengsl og tungumálið með hugljúfum og innihaldríkum lögum í flutningi frábærra tónlistarmanna.

Flytjendur

Alls koma 12 flytjendur við sögu í lögunum tólf!

Hófí syngur sjálf í sex lögum plötunnar. Hún syngur einn dúett með eiginmanni sínum, Arnari (Allt sem ég óska mér) og annan með Gretu Mjöll, systur sinni (Sakna þín). Saman skipa þær systur bandið SamSam sem hefur áður gefið út fjölda laga og kemur hér saman á ný. SamSam og Arnar Jóns flytja einnig lagið Ókomin ár. Lögin Ró og Pínu eins og... flytur Hófí með nýjum tónlistarhópi sem ber nafnið TÖFRAR VERÐA TIL. Sveitin samanstendur af fjórum tónlistarkonum og mæðrum sem allar brenna fyrir að gleðja, kenna og betrumbæta í gegnum tónlist og sköpun.

Arnar Jónsson eiginmaður Hófíar tekur þátt í flutningi fimm laga plötunnar. Lögin sem hann flytur eru ýmist vögguljóð, ástaróður eða svefnmöntrur sungnar frá föður til barns. Dóttir Hófíar og Arnars,, Ída María syngur lagið Vögguljóð með pabba sínum. Hún flytur einnig lagið Ég myndi velja þig, sem er óður barns til foreldris. Þá syngur hún raddir með bróður sínum í laginu Allt sem ég óska mér.

Rakel Pálsdóttir syngur samtals í fjórum lögum plötunnar. Lagið Elska þig alltaf er ástaróður foreldris til barns og Góða nótt er svefnmantra frá móður til dóttur. Rakel er meðlimur í sveitinni TÖFRAR VERÐA TIL sem flytur lögin Ró og Pínu eins og…

Glódís Margrét Guðmundsdóttir spilar á píanó í alls 10 lögum plötunnar. Hún og Ásta Björg Björgvinsdóttir eru meðlimir tónlistarhópsins TÖFRAR VERÐA TIL sem syngur í fjórum lögum plötunnar.

Unnur Birna Björnsdóttir spilar á fiðlu í sex lögum plötunnar og syngur þar að auki lagið Allt er hljótt.

Sigurgeir Skafti Flosason spilar á bassa í nokkrum lögum og Óskar Þormarsson spilar á trommur.

Halldór Gunnar Pálsson tók þátt í upptökum allra laga plötunnar. Upptökum var stýrt af honum og Arnari Jónssyni. Útsetningar voru flestar í höndum Hófíar og Arnars en Halldór lagði einnig sitt að mörkum, þá sérstaklega í lögunum Elska þig alltaf og Pínu eins og… Hann spilar á gítar, rafmagnsgítar, rhodes, wurlitzer og bassa á plötunni.

Viðtöl við flesta flytjendur má finna í leikskrá verkefnisins Hjartans mál. Sem aðgengilegt á síðunni innan tíðar.

Sýningin

Tónlistarsýningin Hjartans mál var frumflutt á Hellu og Hvolsvelli síðastliðið vor. Verkefnið var umfangsmikið og í kjölfarið ákvað höfundur að færa útgáfu plötunnar fram á haustið. Skapaður var töfrandi heimur í kringum tónlistina. Dýnum, pullum, púðum og teppum var dreift um salinn og stólar hafðir í lágmarki. Flytjendur klæddust náttfötum og sviðsmyndin var heimilisleg og ævintýraleg. Gestir komu margir með tuskudýr meðferðis og gátu legið eða knúsast meðan á tónleikum stóð. Textum laga var varpað upp á vegginn. Fræðsla um mikilvægi hvíldar og hlutverk skynfæranna fléttaðist inn á milli laga. Vel tókst til og vonandi verður hægt að endurtaka þessa skynfæraveislu í formi útgáfutónleika vorið 2024. Myndir og myndbönd frá því í vor má finna á instagram- og facebooksíðum Hjartans mál.